Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Banki án peninga

Í einfeldni minn hef ég alltaf haldið að banki væri stofnun sem geymdi peninga. Skúffur troðfullar af fimmþúsundköllum, hvelfingar með erlendum gjaldeyri og gullstangir í tonnavís. Ég hef séð þetta í bíómyndum. Kaupþing hefur titlað sig sem banka um nokkurt skeið og svo kemur í ljós að í þessari höll marmara, gosbrunna og palesanders er enga peninga að finna, ekki krónu. Bara loftbólur. Kaupþing er því raun ekki til. Kaupþing er bara hrikaleg sjónhverfing.
mbl.is Afskrifa tæpa þúsund milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rán í boði stjórnmálaflokka ?

Stuttu eftir hrunið mikla komu fram háværara kröfur í samfélaginu um að frysta eignir auðmanna erlendis. Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin höfnuðu þessu alfarið og hleyptu fram lögfræðingahjörðinni innan þings og utan sem þuldi yfir þjóðinni óskiljanlegar lögfræðilegar skýringar sem áttu að sýna skrílnum fram á þetta bara mætti ekki, ekkert mætti gera fyrr en sekt væri sönnuð og svo væri þetta svo flókið mál.

Vinstri Græn kröfðust kyrrsetningu eigna og höfðu frumvarp þess efnis í smíðum. Þá æpti kórinn að þetta væri ekkert annað en lýðskrum. Framsókn bættist svo í hópinn þegar mynda átti nýja ríkisstjórn og sagði að forsenda fyrir stuðningi við þá stjórn væri, að ekki mætti hrófla við auðmönnunum.

Maður hlýtur að velta fyrir sér umhyggju þessara flokka fyrir fjárglæframönnum. Eru einhver tengsl? Sjálfstæðisflokkur og Björgúlfsfeðgar, Framsókn og S hópurinn, Samfylkingin og Baugur. Eru jafnvel þingmenn og ráðherrar sjálfir innvígðir í spillinguna?

Þegar þjófar ræna innbúi heiðvirðs borgara handtekur lögreglan umsvifalaust alla grunaða þó engin sekt sé enn sönnuð og fórnarlambið fer síðan fram á að innbúinu verði skilað. En slík krafa flokkast að sjálfsögðu undir lýðskrum eða hvað ?


Hvað er að?

Er þetta einu mannvitsbrekkur Sjálfstæðisflokksins í þessu stóra kjördæmi, sem flokkurinn getur boðið fram. Eru bara þrír einstaklingar í flokknum í þessu kjördæmi ?
mbl.is Sjálfstæðismenn með prófkjör í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann mun aldrei finna fyrir kreppunni

Lítill, vitlaus en góðurÉg ætla að afskrifa allar skuldir hans ef einhverjar eru, fyrirgefa honum það að hafa rifið hægindastólinn og sóffann minn í ræmur. Hann hefur pissað í spariskóna mína. Allt verður þetta fyrirgefið. Hann mun áfram fá besta og dýrasta þurrfóðrið og besta kattasandinn. Þetta er lítil fórn af minni hálfu eftir öll árin með yndislegu mali og gælum sem bara hreint og hrekklaust hjarta getur gefið.

Ritstuldur á alþingi

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um gjaldþrotaskipti á Alþingi í gær. Í stað þess að ræða frumvarpið fóru men að munnhöggvast um höfundarrétt frumvarpsins. Þar fóru fremstir Björn Bjarnason, Mörður Árnason, Sigurður Kári og Árni Páll.

Nú er ritstuldur alvarlegt mál. Það hefði verið óskandi að þessir gaurar hefðu farið úr þingsalnum og gert upp sakirnar fyrir héraðsdómi og leyft hinum sem eftir voru að ganga í að samþykkja frumvarpið með hraði. Það er með ólíkindum að bjóða þjóðinni upp á skrípaleik af þessu tagi. Ef áframhald verður á slíkum uppákomum þarf búsáhaldafólk að safnast saman aftur við þinghúsið til að koma vitinu fyrir þetta lið.


Átti að breyta Austurvelli í vígvöll?

imagesSamkvæmt fréttum á RÚV var ríkislögreglustjórinn Haraldur Johannessen búin að panta fjölmarga sérútbúnar brynvarðar óeirðalögreglubíla frá dönsku lögreglunni. Þeir voru komnir á hafnarbakkann í Árósum. Þessi tól átti að nota gegn mótmælendum á Austurvelli. Maður veltir því fyrir sér hvernig átti að nota þessi hernaðartól. Átti að skjóta gúmmíkúlum úr þeim eða átt bara hreinlega að keyra yfir okkur skrílinn. A.m.k. hefði Austurvöllur breyst í vígvöll ef Björn Bjarnason hefði ekki stöðvað þessa geggjun í tæka tíð. Fyrst ríkislögreglustjóri var á annað borð farinn að spá í þetta af alvöru þá furðar maður sig á því hvers vegna hann pantaði ekki eitthvað bitastæðara og öflugra frá Dönum eins og t.d. skriðdreka.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kraftaverk eða góð verkstjórn?

Sullenberger flugstjóri lenti flugvél sinni með á annað hundrað farþega, mjúklega á Hudson ánni. Hann var í nánast í vonlausri stöðu þegar hann ákvað að lenda á ánni með báða hreyfla óvirka. Allir sluppu lifandi. Aðspurður um hvort þetta hafi ekki verið kraftaverk svaraði flugstjórinn af lítillæti: "Ég gerði bara það sem ég er þjálfaður í að gera".

Á sama tíma sátu Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún lömuð í stjórnklefanum á sinni flugvél með alla þjóðina um borð meðan hún steyptist í hafið. Mikið hefði það verið gott fyrir þjóðina að hafa haft menn á borð við Sullenberger flugstjóra við stjórnvölinn á íslensku þjóðarþotunni þegar allt var komið í óefni.


Ólíkt hafast menn að

Forsætisráðherra er búinn að biðja seðlabankastjórana, kurteislega að víkja frá. En þeir eru ekkert að hugsa sér til hreyfingar. Er ekki til einhver reisn hjá þessum mönnum, einhver karlmennska eða jafnvel auðmýkt? Þetta er aumkunarvert. Þeir eru nú ekki beint að fara lepja dauðann úr bláskel þó þeir yfirgefi bankann.

Í dag var ungum bifvélavirkja sagt upp störfum hjá Toyota fyrir það eitt, að segja satt og rétt frá bílaforréttindum forstjórans á bloggi sínu. Honum var var sparkað samstundis, enginn umhugsunarfrestur eða feitur starfslokasamningur í boði. Í ofanálag fékk hann fúkyrðabréf fyrir unnin störf. Þetta væri kanski aðferð til eftirbreytni til að koma þessum bankastjórum burt?


mbl.is Bankastjórn hugsar sig enn um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna á maður að borga skatta ?

Ég hlustaði, ekki alls fyrir löngu, á ungan flokksbundinn sjálfstæðismann tjá sig um skattamál og skattsvik. Þessi maður, sem ætlaði sér að ná langt í stjórnmálum, sagði að hann sæi ekkert athugavert við það að menn (notaði orðið athafnamenn, sem er einhver þjóðflokkur sem þjóðin hefur kynnst náið upp á síðkastið) reyndu að komast hjá því að greiða skatta. Hann talaði af mikilli sannfæringu um það, að einstaklingar væru líklegri til að fara betur með fé en ríkið og þess vegna væri sjálfsagt að komast hjá skattgreiðslu.

Ég spurði þennan unga mann á móti, hvort það væri bara ekki hið besta mál að ég tæki af honum Toyota jeppann, sem hann átti, af því að ég liti svo á að ég væri miklu betri bílstjóri en hann. Man ekki hvort hann svaraði.


Siðlaus þjófnaður

Starfsmenn bankanna veittu völdum viðskiptum á leiðir til til að komast undan skattgreiðslum með notkun greiðslukorta. Trúlega eru þarna einhverjar upphæðir á lausu þó ekki væri nema til að bjarga nokkrum ræstingakonum frá uppsögnum. Þeir sem stunda slíka iðju heimta samt bestu þjónustuna í heilbrigðisgeiranum og í allri annarri þjónustu sem heiðarlegir skattgreiðendur standa undir. Skattsvik er ekkert annað en þjófnaður, ólöglegur og siðlaus.
mbl.is Grunur um brot bankastarfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband