Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Útvarpsstjóri þarf að komast í vinnuna


Ég var að horfa á Pál Magnússon útvarpsstjóra lesa fréttir í sjónvarpinu. Hef reyndar aldrei skilið þessa áráttu hans að sífellt vera trana sér fram á skjáinn. Þá laust niður í huga mér þessari hugsun, hvers vegna þarf ég að borga fyrir hann bíl fyrir utan hátt tveggja milljóna króna mánaðarlaun. Ég talaði rasandi yfir þessu óréttlæti við vin minn um daginn. Hann horfði á mig forviða og sagði: "Hvað er að þér núna Finnur minn, skilurðu ekki að maðurinn þarf að komast í vinnuna".

Mér varð orðfall og hugsaði, óskaplega getur maður verið tregur. Auðvitað þarf maðurinn komast í vinnuna. Hvað myndi gerast ef hann kæmist ekki í vinnuna. Það myndir hreinlega vera skrúfað fyrir útsendingar RUV. Maður er alla vegana kúgaður til að vera áskrifandi hvort sem manni líkar betur eða verr. Já auðvitað þarf Páll að komast í vinnuna.


Framsókn sprengir ríkisstjórn sem er ekki til

Það er nú að koma á daginn sem mig grunaði. Hið rétta andlit Framsóknarflokksins er nú að birtast þjóðinni. Sigmundur formaður sem alltaf hefur klifað á því að engan tíma mætti missa, varla klukkustund. Lausn á vandamálum þjóðarinnar yrði að hafa algeran forgang og stjórnmálaþrætur væru aukaatriði. Hann sagði að vísu að þetta væri engin draumastjórn sem hann hyggðist styðja. Það skildi þó ekki vera að draumstjórnin væri minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks. Ilmurinn úr kjötkötlunum eftir áralanga samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn er hreinlega of freistandi fyrir Framsókn.
mbl.is Þríeykið þingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í þessu fína


Geir Haarde ávarpaði hjörðina í safnaðarheimilinu Valhöll í dag og sagði að ástandið væri bara aldeilis ekki slæmt. Hvað er í gangi? Engar þúsundir atvinnulausra, engin gjaldþrot fyrirtækja og heimila. Maður hefur verið að þvælast um Austurvöll í mótmælum, rauðglóandi af bræði, bloggandi um eitthvað ímyndað slæmt ástand í þjóðfélaginu. Svo er þetta bara allt allt tómur misskilningur. Hér er allt í lukkunar velstandi. Hvers vegna í ósköpunum gat maðurinn ekki ropað þessu út úr sér fyrr.

Norska krónan enn og aftur

Ég skil ekki af hverju Steingrímur J. er enn með Noreg á heilanum. Þetta ver að verða þráhyggja. Norðmenn eru margbúnir að tyggja það ofan í hann og og þjóðina að þeir vilji ekkert með okkur hafa nema að veita okkur umsamið lán. Hvers vegna skildu Norðmenn yfir höfuð hafa einhvern áhuga á drösla okkur upp úr skítnum sem við komum okkur í sjálf.
mbl.is Hugnast norska krónan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1,4 milljón á dag í laun

Eimskipafélag Íslands tapaði níutíu og sex milljörðum í rekstri. Hinn ábyrgðarfulli forstjóri félagsins ,Baldur Guðnason þurfti að fá í laun til áorka þessu hvorki meira né minna en 1,4 milljón á dag í laun. Ég endurtek á degi hverjum. Við skulum leggja nafn þessa manns á minnið og bætum honum í safn þeirra einstaklinga sem eyðilögðu Ísland.

Það er nú svo komið að maður treystir sér varla lengur til að lesa fréttir dagsins án þess að vera búinn að taka inn góðan skammt af Primperan. (lyf við ógleði) slíkur er sorinn sem manni er boðið upp á dag eftir dag.


Mótmælum áfram á Austurvelli


Það er engin ástæða til að hætta að mótmæla á Austurvelli. Enn situr seðlabankastjórnin tonnatakslímd við leðurstólana í Svörtuloftum. Enn situr ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, maðurinn sem gerði allt rétt. Enn sitja í bönkunum starfsmenn sem gáfu eiginkonum sínum eitt stykki hús af hreinni tilviljun rétt fyrir hrunið. En síðast en ekki síst þarf útrásarskríllinn, landaráðliðið, að fá að finna finna til tevatnsins. Allir þekkja nöfn þeirra. Það er búið að lumbra réttilega á stjórnmálamönnum og kanski af gæsku ætti þjóðin að gefa þeim stund til að draga andann (en bara stutt). Það er mikilvægt að standa vaktina þrátt fyrir nýja ríkisstjórn.

Hernaðurinn gegn þjóðinni

Nokkuð hefur verið rætt um hugtakið, landráð af gáleysi. Mér finnst alveg óþarfi að mýkja þetta með því að bæta við orðinu gáleysi. Hernaðurinn gegn þjóðinni hófst í raun þegar þávarandi ríkisstjórn með Halldór Ásgrímsson í broddi fylkingar afhenti útvöldum sjávarauðlindir þjóðarinnar fyrir ekkert. Næsta skrefið var þegar útvöldum flokksgæðingum voru afhentir bankarnir svipuðum aðilum. Þar var sannarlega ekkert gáleysi á ferðinni, þetta var útspekúleruð aðgerð af hálfu stjórnvalda til að tryggja innmúruðum gæðingum völd og áhrif.

Það kom fljótlega á daginn að þeir sem fengu bankana gefins höfðu engan áhuga á rekstri venjulegs banka hvað þá þekkingu á rekstri slíkra stofnana. Frá upphafi var það þeirra eina markið að auðgast óhugnanlega. Þessir menn vissu upp á hár hvað þeir voru að gera enda með herlið af lögfræðingum, hagfræðingum og endurskoðendum til leiðbeiningar. Hér var sannarlega ekkert gáleysi í gangi.

Hin nýja stétt bankaeigenda skildi það vel, að til að ná markmiðum sínum varð að blóðmjólka þjóðina af þeim krónum sem tiltækar voru og gott betur. Til að sjá drauma sína um auðsöfnun af þeirri stærðargráðu sem þeir höfðu undirbúið dugði ekkert minna en en að gera landið og þjóðina hægt og hljóðlega gjaldþrota. Hér var ekkert gáleysi á ferð. Bankamönnunum og sérfræðingum þeirra var þetta ljóst frá upphafi og þeim tókst ætlunarverkið.

Í skattaskjólum víða um heim eru eignirnar geymdar en almenningur mun þurfa að borga þeim inn í eilífðina og á meðan hlæja þessir menn upp í opið geðið á þjóðinni. Ef þetta er ekki landráð þá hefur merking orðsins tapað merkingu sinni í mínum huga. Manni hefur orðið óglatt af minna tilefni.

Sjálfur mun ég ekki öðlast sálarró fyrir þessir menn verða settir bak við lás og slá og eignir þeirra gerðar upptækar. Mér stendur bara hreinlega á sama þó jarmandi hjörð lögfræðinga tali um að það sé bæði siðlaust og ólöglegt. Setjum bara á neyðarlög.


Forsetinn má bara ekki tala

Þótt ég sé lítill aðdáandi forsetans sé ég ekkert athugavert við að hann nefni nokkur atriði sem reyndar þjóðin öll hefur verið að tala um. Eins og fyrri daginn eru að það sjálfstæðismenn sem fara af hjörunum og skrifa langlokur fullir hneykslunar enda er þeim almennt illa við að einhver tjái sig um nokkurn skapaðan hlut sem máli skiptir, nema hann sé með foringjatign innan flokksins.

Ef Davíð fer

Hvað gerist þegar Davíð fer úr Seðlabankanum. Það er auðvitað skuggalegt að hinu fjárhagslega gereyðingarvopni verði sleppt lausu út meðal fólksins. Það jákvæða er hins vegar, að hann mun vafalaust storma upp í Valhöll með náhirðina í eftirdragi og sprengja Sjálfstæðisflokkinn í tætlur. Hann mun örugglega opna svarta kladdann og opinbera kolsvartar upplýsingar um innviði flokksins og tengsl við fjárglæfraöfl.

Sjálfstæðismenn nötra af skelfingu vegna hugsanlegrar endurkomu Foringjans í stjórnmál og þá er hann, að þeirra mati best geymdur í Seðlabankanum ef ekki er hægt að koma honum t.d. fyrir á einhverju bókasafni þar sem hann gerir engan óskunda.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband