Skrípaleikurinn endalausi
15.2.2009
Það virðist ekki vera gjá milli stjórnmálamanna og þjóðarinnar heldur heilt sólkerfi. "Snúum bökum saman" voru hvatningarorðin frá fyrri ríkisstjórn. Almenningur brást strax við, þjappaði sér saman m.a. á Austurvelli og sneri bökum saman. En þetta átti að sjálfsögðu ekki við stjórnmálamennina sjálfa.
Þegar þeir voru mættir til leiks á ný eftir jólafrí breyttist alþingi umsvifalaust í leikhús fáránleikans. Farið var að þrasa um einhvern tittlingaskít eins höfundarrétt á frumvarpi, forseta þingsins, bréfaskriftir og annan hégóma. Nú síðast var það enn og aftur Birgir Ármannsson froðufellandi út af frumvarpi um lífeyrissjóði. Leiksýningin í beinni á hverjum degi.
Það er bersýnilegt að þeir ætluðu sér aldrei að standa við stóru orðin um gegnsæi, uppstokkun í fjármálakerfinu, nýtt Ísland með ný gildi og viðhorf. Völd og persónulegir hagsmunir leikaranna eru enn og aftur settir í forgang. Þeir bjóða þjóðinni dag eftir dag upp á grafalvarlegan skrípaleik með vonlausum leikurum meðan allt er að brenna til kaldra kola. Það sem verra er, að okkur verður boðið upp á áframhaldandi sýningu án hlés, trúlega með sömu leikurunum, að kosningum loknum.
Vonandi mæta þá fjölmargir áhorfendur vopnaðir búsáhöldum til að stöðva þessa skelfilegu uppákomu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.