Rán í boði stjórnmálaflokka ?
8.2.2009
Stuttu eftir hrunið mikla komu fram háværara kröfur í samfélaginu um að frysta eignir auðmanna erlendis. Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin höfnuðu þessu alfarið og hleyptu fram lögfræðingahjörðinni innan þings og utan sem þuldi yfir þjóðinni óskiljanlegar lögfræðilegar skýringar sem áttu að sýna skrílnum fram á þetta bara mætti ekki, ekkert mætti gera fyrr en sekt væri sönnuð og svo væri þetta svo flókið mál.
Vinstri Græn kröfðust kyrrsetningu eigna og höfðu frumvarp þess efnis í smíðum. Þá æpti kórinn að þetta væri ekkert annað en lýðskrum. Framsókn bættist svo í hópinn þegar mynda átti nýja ríkisstjórn og sagði að forsenda fyrir stuðningi við þá stjórn væri, að ekki mætti hrófla við auðmönnunum.
Maður hlýtur að velta fyrir sér umhyggju þessara flokka fyrir fjárglæframönnum. Eru einhver tengsl? Sjálfstæðisflokkur og Björgúlfsfeðgar, Framsókn og S hópurinn, Samfylkingin og Baugur. Eru jafnvel þingmenn og ráðherrar sjálfir innvígðir í spillinguna?
Þegar þjófar ræna innbúi heiðvirðs borgara handtekur lögreglan umsvifalaust alla grunaða þó engin sekt sé enn sönnuð og fórnarlambið fer síðan fram á að innbúinu verði skilað. En slík krafa flokkast að sjálfsögðu undir lýðskrum eða hvað ?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.