Hernaðurinn gegn þjóðinni
28.1.2009
Nokkuð hefur verið rætt um hugtakið, landráð af gáleysi. Mér finnst alveg óþarfi að mýkja þetta með því að bæta við orðinu gáleysi. Hernaðurinn gegn þjóðinni hófst í raun þegar þávarandi ríkisstjórn með Halldór Ásgrímsson í broddi fylkingar afhenti útvöldum sjávarauðlindir þjóðarinnar fyrir ekkert. Næsta skrefið var þegar útvöldum flokksgæðingum voru afhentir bankarnir svipuðum aðilum. Þar var sannarlega ekkert gáleysi á ferðinni, þetta var útspekúleruð aðgerð af hálfu stjórnvalda til að tryggja innmúruðum gæðingum völd og áhrif.
Það kom fljótlega á daginn að þeir sem fengu bankana gefins höfðu engan áhuga á rekstri venjulegs banka hvað þá þekkingu á rekstri slíkra stofnana. Frá upphafi var það þeirra eina markið að auðgast óhugnanlega. Þessir menn vissu upp á hár hvað þeir voru að gera enda með herlið af lögfræðingum, hagfræðingum og endurskoðendum til leiðbeiningar. Hér var sannarlega ekkert gáleysi í gangi.
Hin nýja stétt bankaeigenda skildi það vel, að til að ná markmiðum sínum varð að blóðmjólka þjóðina af þeim krónum sem tiltækar voru og gott betur. Til að sjá drauma sína um auðsöfnun af þeirri stærðargráðu sem þeir höfðu undirbúið dugði ekkert minna en en að gera landið og þjóðina hægt og hljóðlega gjaldþrota. Hér var ekkert gáleysi á ferð. Bankamönnunum og sérfræðingum þeirra var þetta ljóst frá upphafi og þeim tókst ætlunarverkið.
Í skattaskjólum víða um heim eru eignirnar geymdar en almenningur mun þurfa að borga þeim inn í eilífðina og á meðan hlæja þessir menn upp í opið geðið á þjóðinni. Ef þetta er ekki landráð þá hefur merking orðsins tapað merkingu sinni í mínum huga. Manni hefur orðið óglatt af minna tilefni.
Sjálfur mun ég ekki öðlast sálarró fyrir þessir menn verða settir bak við lás og slá og eignir þeirra gerðar upptækar. Mér stendur bara hreinlega á sama þó jarmandi hjörð lögfræðinga tali um að það sé bæði siðlaust og ólöglegt. Setjum bara á neyðarlög.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.